14.6.2007 | 01:10
Köben, Hér Komum Við
Sæl veriði.
Margt í mörgu en þó ekki það margt að fólk ofbugist og verði margslungið fyrir vikið.
Sumarið kom í gær og fór aftur í morgun. Þökkum innlitið og fögnum því með löndum vorum. 7 tíma sólarsælu í gær gríðarlega vel tekið og almennt vel séð af fólki utan úr bæ. Tókum hjólfáka okkar eftir vinnudag elvars og héldum niður í bæ með Fróða í körfu framan á hjóli Laugunnar. Skrautleg sjón sem ég sá fyrir mér sem innslag í Kastljósinu hjá Hombre vorum. Komumst klakklaust á hinn helga stað við Austurvöllinn en sáum fljótlega að fleirum hafði dottið þetta snjallræði í hug. Öll borð upptekin og margsetin af sveimandi fólki sem minnti mig á hrægamma sveimandi yfir dottandi fólki í eyðimerkurþorpi. Ákváðum þar og þá að taka rónann á þetta og setjast á stéttina fyrir framan Deco (þó ekki Deco sjálfan), stað á milli Thorvaldsen og Cafe Paris. Fengum að sitja þar og panta kaffi og hvítvín á línuna og vatn handa seppa. Í allri hjólastemmingunni verð ég pirraður á öllum glerbrotunum sem liggja á víð og dreif á gangstéttum borgarinnar. Eins og fólk hafi ekkert betra að gera en að dúndra glerflöskum í jörðina og hlaupa í burtu. Þótti það reyndar gaman sjálfum á yngri árum en það er allt önnur saga og kemur ykkur bara alls ekkert við.
En allavega, þá var brunað heim eftir frábært sólargrill í miðbænum með smá pulsutoppi í Laugardalnum, þar sem Fróði fékk hráa pulsu og við eina með öllu. Þaðan fékk hvuttinn að hlaupa heim með hjólandi foreldra í eftirdragi. Ótrúlegt hvað þessar litlu loppur ná að hlaupa hratt. Múfúpabbi stoltur af múfú sínum...
Köben kallar svo á morgun. Höldum þangað seinnipart í heimsókn til Hanna og co. Geri ráð fyrir að Bragleppur og co verði sótt heim að auki. Annars bara ljúf helgi framundan þar sem batteríin verða hlaðin sem og þríhleypan sem ég keypti um daginn. Mikilvægt að hafa þetta allt hlaðið og klárt í slaginn.
Kveð að sinni.
eg
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.