Hitt og þettað...

Jú sæl veriði.

Spilaði minn fyrsta leik í utandeildinni um daginn með liði mínu, BYGG.  Liðið nefnt eftir aðalstyrktaraðilanum.  Kom mér á óvart hve mikið af peningum er í gangi í þessari deild og menn að þéna hreinlega eins og þeir fái borgað fyrir það...  Náði reyndar ekki að klára leikinn sökum spjaldaglaðs dómara sem ákvað að afhenda mér tvö gul kort í síðari hálfleik.  Afplánaði því bann í okkar næsta leik sem endaði með jafntefli, líkt og sá fyrsti.  Erum því með 2 stig eftir 2 leiki af 9 og menn bara nokkuð brattir eftir þessa byrjun.  Bendi fólki á www.gras.is til að skoða framgöngu BYGGs í sumar.

Var á Kópavogsvelli í gær að horfa á Kópavogsstórveldið Breiðablik valta yfir HK, 3-0.  Kom berlega í ljós hvort þessara liða er stóri bróðir og hvort er litla systir...  En gaman að svona "derby" leikjum og one vonar að HK haldi sæti sínu svo þessir leikir fari fram á hverju tímabili.

Sá svo mína menn í Val rúlla yfir FH í kjvöld, 4-1, og hleyptu smá spennu í þetta mót aftur.  Því ber að fagna og geri ég það hér með... VÚHÚ!!

Tók rónann á þetta á laugardaginn ásamt Laugu og Mr. Frodo.  Hertókum bekk við Jón Sig. vopnuð hvítvíni og bjór og sötruðum þetta í rólegheitum í glampandi sól og þokkalegasta hita.  Sjálfsagt verið litin hornauga hér og þar og þetta hátterni vafalaust fallið í grýttan jarðveg og hrjóstruga fjöru.

eg


"Hrærðar yfir því hve margir tóku þátt"

Blað dagsins 

Eins gott að þær voru ekki hristar...

 eg


Rejsen

Úgg úgg þið þarna...

Sestur að nýju með penna í hendi og hund í vasa. 

Köben var snilld eins og alltaf.  Vorum í frábæru yfirlæti hjá Hanna og co.  Slökuðum einhverjum 143 bjórflöskum, 17 viskíglösum, 28 snakkpokum, einni saltstöng, 7 kvöldmáltíðum og einum hassvindli.  Kíktum einnig í kaffi til Braga&Erlu+Jónatan útá Amager þar sem gríðarlega fallegir endurfundir áttu sér stað.  Eins náði ég að kría út einn kaldan öl á Streckers með Fröslev, gömlum félaga úr Ajax liðinu, á leið útá Kastrup á mánudaginn var.  Innihaldsríkar og uppbyggilegar samræður, sem ávallt, áttu sér þar stað og gaman að hitta þennan snilling aftur.

Náðum Bakken með stórfjölskyldunni þar sem Laugan vann dýrindis stórtígur handa Elvari sínum í púttkeppni.  Stelpan að standa sig vel og að gera fína hluti.

Sem sagt snilldarreisa og þökkum vér gestgjöfum vorum innilega fyrir samveruna.

eg


Köben, Hér Komum Við

Sæl veriði.

Margt í mörgu en þó ekki það margt að fólk ofbugist og verði margslungið fyrir vikið.

Sumarið kom í gær og fór aftur í morgun.  Þökkum innlitið og fögnum því með löndum vorum.  7 tíma sólarsælu í gær gríðarlega vel tekið og almennt vel séð af fólki utan úr bæ.  Tókum hjólfáka okkar eftir vinnudag elvars og héldum niður í bæ með Fróða í körfu framan á hjóli Laugunnar.  Skrautleg sjón sem ég sá fyrir mér sem innslag í Kastljósinu hjá Hombre vorum.  Komumst klakklaust á hinn helga stað við Austurvöllinn en sáum fljótlega að fleirum hafði dottið þetta snjallræði í hug.  Öll borð upptekin og margsetin af sveimandi fólki sem minnti mig á hrægamma sveimandi yfir dottandi fólki í eyðimerkurþorpi.  Ákváðum þar og þá að taka rónann á þetta og setjast á stéttina fyrir framan Deco (þó ekki Deco sjálfan), stað á milli Thorvaldsen og Cafe Paris.  Fengum að sitja þar og panta kaffi og hvítvín á línuna og vatn handa seppa.  Í allri hjólastemmingunni verð ég pirraður á öllum glerbrotunum sem liggja á víð og dreif á gangstéttum borgarinnar.  Eins og fólk hafi ekkert betra að gera en að dúndra glerflöskum í jörðina og hlaupa í burtu.  Þótti það reyndar gaman sjálfum á yngri árum en það er allt önnur saga og kemur ykkur bara alls ekkert við. 

En allavega, þá var brunað heim eftir frábært sólargrill í miðbænum með smá pulsutoppi í Laugardalnum, þar sem Fróði fékk hráa pulsu og við eina með öllu.  Þaðan fékk hvuttinn að hlaupa heim með hjólandi foreldra í eftirdragi.  Ótrúlegt hvað þessar litlu loppur ná að hlaupa hratt.  Múfúpabbi stoltur af múfú sínum...

Köben kallar svo á morgun.  Höldum þangað seinnipart í heimsókn til Hanna og co.  Geri ráð fyrir að Bragleppur og co verði sótt heim að auki.  Annars bara ljúf helgi framundan þar sem batteríin verða hlaðin sem og þríhleypan sem ég keypti um daginn.  Mikilvægt að hafa þetta allt hlaðið og klárt í slaginn. 

Kveð að sinni.

eg


Grindarsmellur

Góða kvöldið.

Datt í hug að segja ykkur frá fyrirbæri sem kallast grindarsmellur.  Þið kannist öll við að vera gersamlega í spreng.  Náttúran öskrar á ykkur og lætur öllum illum látum.  Hamast hreinlega á ykkur.  Þið eruð að drulla á ykkur!  Og maður er búinn að vera þungt haldinn síðasta klukkutímann eða svo og e-a hluta vegna ekki komist á dolluna.  Lítill "njósnari" byrjaður að kíkja út og minnsta óhapp hér ylli stórslysi.  Þrýstingurinn orðinn ógurlegur og allir vöðvar líkamans að vinna að því að loka fyrir gatið.  Við illan leik kemst maður þó oftast á klósettið og ef næg orka losnar úr læðingi þá lendir maður í grindarsmelli.  Þá gerist það að kúkurinn, með "njósnarann" í fararbroddi, dúndrast niður með slíkum fítonskrafti að klósettið ásamt rasskinnum og hluta af innanverðum lærum hraunhúðast af manns eigin skít.  Þegar þarmarnir svo loks tæmast myndast það mikill sogkraftur lóðrétt niður á við að sjálf beinagrindin byrjar að losna frá vefjum og húð.  Þetta endar með því að grindin togast út sömu leið og kúkurinn og endar öll í dollunni líka.  Eftir liggur hamurinn, eins og úrvinda lamadýr, á klósettsetunni án beinagrindar.  Þetta, gott fólk, kallast grindarsmellur og er ekkert spes að lenda í. 

Kveð að sinni

eg

 


Sumarstörf

Gott kvöldið.

Vann eitt sumarið sem næturvörður í Borgarkringlunni sálugu ásamt Hombre.  Með skemmtilegri sumrum og jafnframt eitt af því steiktasta.  Veit ekki hvaða fávita datt í hug að láta okkur saman í þetta starf, sem meðal annars fólst í því að halda sér vakandi, eins og gefur að skilja...  Mættum klukkan 10 á kvöldin og lukum vakt kl. 8 um morguninn, eða þegar húsvörðurinn Guðfreður sá sér fært að skríða á lappir og taka við stjórninni.  Kölluðum vesalings manninn, þó bara okkar á milli, Guðfreð aumingja og hlógum í ca. 17 mínútur í hvert sinn er við nefndum eða sáum manninn.  Man að við mættum honum e-n daginn á Laugaveginum og stóðum við óvígir drjúga stund þar á eftir sökum hláturskrampa.

Eitt af því fáa sem okkur var treyst fyrir var að læsa stóru hliði niðri í bílakjallara eftir að allir búðareigendur sem og viðskiptavinir voru farnir út eftir lokun.  Var einn á vakt eitt kvöldið og eitthvað voðalega þreyttur.  Drattaðist niður í kjallara í kringum ellefu leytið á þessu sunnudagskvöldi að læsa þessu fjandans hliði.  Merkilegt hvernig hin minnstu verkefni vaxa manni í augum þegar lítið er að gera.  Læsti því nokkuð annars hugar og haugaðist upp aftur.  Og sjáandi fram á það að það væri ekki séns í helvíti að ég næði að vaka nóttina, ákvað ég að sjálfsögðu að leggja mig...  Vakinn nokkkuð harkalega skömmu síðar af einum búðareiganda sem enn var að vinna.  Sagðist ekki komast út þar sem kjallarahliðið væri læst!  Hvað er fólk annars að vinna svona lengi á kvöldin...  En, ok ég opnaði hliðið og hleypti vinnualkanum út og fékk slatta af skömmum í hattinn daginn eftir.  Hélt þó starfinu með herkjum og Borgarkringlan gríðarlega vel vöktuð út sumarið af okkur félögunum.

Skárri er sofandi næturvörður en enginn næturvörður.

eg


CL Úrslit

Sæl og bless.

Gekk ekki...  Tap í Aþenu.  Þó alltaf gott að koma sér í þessa úrslitaleiki, fá þessa titlasénsa hér og þar.  Dómari leiksins vakti furðu mína.  Síflautandi í tíma og ótíma og skemmdi algerlega allt rennsli og flæði í leiknum.  Toppaði svo kvöldið hjá sér með því að flauta leikinn of snemma af.  Lyktar ískyggilega af sérítölsku dómaramútuhneyksli... J  Ætla þó alls ekki að leggjast í e-ð Ferguson þunglyndi og kenna dómaranum tapið.  Milan skoraði 2 mörk og Liverpool aðeins eitt og þar við situr.

Sá annars leikinn í góðum félagsskap á hinum fallega bar, Catalinu í hjarta Kópavogs.  Hombre var þarna ásamt þremur bræðrum, Arnies, Þórhalli og Daða, gömlum pósti úr fortíðinni.  Bjórinn þusti ofan í mann og fór afar mikinn þetta kvöld. 

72918789

Gott veður í dag, hitinn uppí einhverjar 35 gráður og nýttum við okkur það með miðbæjarferð ásamt hvutta litla.  Fengum borð utan við Thorvaldsen og létum sólina grilla okkur.  Gekk vel fyrir utan eitt lítið gubb hjá seppa litla undir borðinu okkar.  Hefur líklega laumast í öl pabba síns og orðið meint af.

Kveð að sinni.

Sjaldan fellur bjór í kram smárra seppa

eg


Kvöldið Fyrir...

Sælt veri fólkið.

"Þetta er BÚIÐ" sagði Logi Ólafsson þegar Crespo kom Milan í 3-0 á 43. mínútu úrslitaleiks Meistaradeildarinnar í Istanbul fyrir tveimur árum síðan.  "Búið" sagði hann, með þvílíkri áherslu að meira segja ég trúði honum.  Milan leikmenn trúðu því allavega og fögnuðu svo hátt í hálfleik að lætin í þeim bárust alla leið til eyrna Liverpool manna í næsta klefa.  Það atriði, ásamt, innáskiptingu Hamann í stað Finnan í upphafi síðari hálfleiks hafði sitt að segja í magnaðri endurkomu minna manna.  Ég hef oft sagt að sportið er grimmt, sem kom berlega í ljós þetta kvöld. 

Leikurinn á morgun verður mjög erfiður og ég veit að margir vonast eftir sigri Milan manna.  Geta hreinlega ekki hugsað sér að sjá Rauða Herinn hampa sínum 6. Evrópumeistaratitli.  Skipan dómarans á leikinn reyndar ekki góð tíðindi fyrir Liverpool.  Sá ágæti maður hefur dæmt 5 sinnum Evrópuleiki hjá Milan og þeir unnið þá alla.  3 svar hefur hann flautað Liverpool leik og þeir allir tapast. 

Krossa allt sem hægt er að krossa í kvöld og hvet ykkur að gera slíkt hið sama.  Vil síður sjá þessa spagetti étandi kaffidrykkju "chokko" gæja fagna annað kvöld...

Læt hér að endingu eitt gott myndband fylgja með...

http://www.youtube.com/watch?v=7DPzqGJm5uI&mode=related&search

eg


Þriðja Upphitun...

Sæl.

Þá er komið að jöfnunarmarkinu góða.

http://www.youtube.com/watch?v=A1w9ShUacBo


Önnur Upphitun

Sæl.

Hér kemur myndband nummero dos til að hita okkur Púllara upp fyrir miðvikudaginn...

http://www.youtube.com/watch?v=NyqsPvwSUJ8

eg


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband